„Ég hef aldrei spilað á Lækjartorgi áður þannig þetta var ákveðinn áfangi,“ segir Gunnar Lárus Hjálmarsson, landsmönnum eflaust betur kunnugur sem Dr. Gunni, sem tróð upp ásamt hljómsveit sinni í gamla söluturninum á föstudag.
Ferill tónlistarmannsins nær aftur um nokkra áratugi og hefur hann eflaust séð sviðin stærri en hann bendir þó á jákvæðan punkt sem fylgir plássleysi söluturnsins.
„Þetta er allavega góður staður upp á að það er fullt hús. Það var alveg fullt hús hjá okkur.“
Aðspurður segir hann lagalistann mestmegnis hafa staðið af lögum frá nýjustu plötu hljómsveitarinnar, en bandið gaf út plötuna Er ekki bara búið að vera gaman? í október.
Þó hljómuðu einnig slagarar frá fyrri plötum á borð við Aumingi með bónuspoka og Ég er í vinnunni.
Spurður um næstu skref hljómsveitarinnar segir tónlistarmaðurinn að þeir hafi verið búnir að vera ansi duglegir síðasta mánuðinn þar sem þeir til að mynda héldu útgáfutónleika. Fram undan er þó spennandi verkefni hjá honum sjálfum en hann mun, ásamt Lúðrasveit Reykjavíkur og söngkonunni Salóme Katrínu, spila í Tjarnarbíói 23. nóvember.
„Það er búið að útsetja svona skástu lögin sem ég hef samið og Lúðrasveitin mun spila þetta og ég syng með og Salóme,“ segir Gunnar og bætir við að lokum.
Það verður alveg svona „once in a lifetime“ gigg.