„Ég er kominn aftur,“ lýsti tónlistarmaðurinn Floni yfir í upphafslaginu á annarri breiðskífu sinni árið 2019. Hálfur áratugur er liðinn síðan og nú hefur Friðrik Jóhann Róbertsson loksins gefið út þriðju og síðustu breiðskífuna í þríleiknum sínum: Flona 3.
„Ég myndi lýsa henni sem mjög tilfinningamikilli og djúpri,“ segir Friðrik um nýju plötuna í samtali við Morgunblaðið. Þegar hann er beðinn að kjarna nýja verk sitt í nokkrum orðum verða „raunveruleiki“ og „sársauki“ m.a. fyrir valinu. Það reyndist á tímum erfitt að semja Flona 3, segir Friðrik. Það hafi tekið á að berskjalda sig svona mikið á plötunni en þá hafi verið gott að eiga trausta vini að.
Það hefur nefnilega margt gerst í lífi tónlistarmannsins á þessum fimm árum. Hann segir að kórónuveirufaraldurinn hafi haft mikil áhrif á líf sitt en á þeim tíma varð hann einnig faðir og Friðrik segir föðurhlutverkið hafa opnað hjarta sitt.
En hver er þessi Floni? „Floni er einlægur,“ svarar rapparinn, ryþmablússöngvarinn og poppstjarnan. En þrátt fyrir einlægni vill Friðrik yfirleitt halda sínu einkalífi út af fyrir sig.
Friðrik fæddist árið 1998 og ólst upp í Vesturbænum. Hann gekk í Melaskóla og síðan Hagaskóla. Þegar hann útskrifaðist þaðan árið 2014 fór hann í Verslunarskóla Íslands, en hafði aðeins verið í Versló í eitt ár þegar það rann upp fyrir honum að „akademíska leiðin“ væri ekki alveg fyrir sig. Hann hafði nefnilega fundið aðra köllun. „Ég datt í raun úr skóla vegna ástríðu minnar fyrir tónlist,“ segir hann og tekur fram að foreldrarnir hafi ekki verið alsáttir við þá ákvörðun.
En tónlistin hefur fylgt Friðriki út lífið. Hann lagði stund á hljóðfæranám sem barn en þegar hann óx úr grasi var það „trappið“ sem heillaði hann mest. Bandaríski rapparinn Future var þar í miklu uppáhaldi og veitti Friðriki mikinn innblástur, sérstaklega hvernig hann nýtir auto-tune sem hljóðfæri, en „Flona-sándið“ einkennist gjarnan af átótjúnuðum söng yfir hljómgervlasinfóníu og bassa sem gæti skekið jörð væri hann spilaður í nógu stóru hátalarakerfi.
Þegar Friðrik hætti í Versló fór hann að semja takta fyrir hina ýmsu rappara en samhliða því samdi hann einnig sín eigin lög á hliðarlínunni. Loksins kom að því árið 2017 að hann gaf út sitt fyrsta lag, Tala saman, og síðan sína fyrstu breiðskífu er nefndist Floni. Platan naut strax mikill vinsælda. Og þá varð ekki aftur snúið.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.