Aðdáendur íslensku strákasveitarinnar IceGuys geta heldur betur fagnað í dag, því strákasveitin hefur gefið út glænýtt lag, titlað Sexý Rú. Rúrik Gíslason, einn liðsmaður sveitarinnar, fer þar með sóló og er lagið í skemmtilegum sveitafíling.
„IceGuys tvö er loksins að koma út og tengist lagið þáttunum beint. Þetta er skemmtileg viðbót við IceGuys-heiminn þó að IceGuys séu vissulega ekki flytjendur lagsins heldur tónlistarmaðurinn Sexý Rú.
Lagið fléttast skemmtilega inn í fyrsta þáttinn án þess þó að gefa of mikið upp. Líkt og í seríu eitt þá skemmtum við okkur konunglega við gerð þáttanna þar sem við höldum áfram að hafa húmor fyrir sjálfum okkur að leiðarljósi. Ég hlakka mikið til að heyra viðbrögðin við laginu og þáttunum og vonandi náum við að fá fólk til að hlæja og hafa gaman af," segir Rúrik Gíslason.
Nýja þáttaröðin um IceGuys kemur í Sjónvarp Símans Premium í lok nóvember og geta aðdáendur stákahljómsveitarinnar því byrjað að telja niður dagana.
„Það er alveg ótrúlega gaman að vera hluti af IceGuys-heiminum enda heill her af fólki sem vinnur saman í hinum fjölbreyttustu verkefnum. Að vera hluti af svona verkefni og ná að skapa heim tónlistar og sjónvarps, sem tala svona vel saman er einstakt. Okkar hlutverk er að vera með og styðja sveitina alla leið, svo aðdáendur geti haldið áfram að njóta," segir Ingólfur Norðdahl hjá Símanum.