Bandaríski tónlistarmaðurinn Sean „Diddy“ Combs mætti fyrir rétt í dag og óskaði eftir að losna úr fangelsi gegn tryggingagjaldi.
Dómarinn í málinu ákvað að fresta ákvörðuninni þar til í næstu viku.
Diddy var handtekinn í september og í kjölfarið ákærður fyrir fjárkúgun og kynlífsþrælkun. Er hann einnig sakaður um að hafa rekið „glæpaveldi“ sem á að hafa staðið fyrir mannránum, íkveikjum, nauðungarvinnu og mútum.
Honum hefur þegar tvisvar sinnum verið neitað um að losna úr fangelsi gegn tryggingu. Saksóknarar í málinu segja að hann hafi reynt að hafa samband við vitni í málinu á meðan hann situr inni í fangelsi.
Réttarhöld yfir rapparanum hefjast þann 5. maí á næsta ári.
Ólíklegt er að honum verði sleppt lausum gegn tryggingu og mun hann líklegast vera á bak við lás og slá þar til réttarhöldin fara fram.
Diddy hefur einnig verið kærður í öðru máli sem snýr að kynferðisbrotum gegn 100 manns. 25 þeirra voru undir lögaldri þegar meint brot áttu sér stað.