Bandaríski gamanþátturinn Saturday Night Live fagnaði hálfrar aldar afmæli sínu þann 11. október síðastliðinn og mun halda upp á stórafmælið með sérstökum þriggja klukkustunda hátíðarþætti í febrúar á næsta ári.
Í tilefni stórafmælisins var blásið til heljarinnar myndatöku með hátt í 60 liðsmönnum, bæði fyrrverandi og núverandi, leikarahópsins, sem allir hafa glatt unga sem aldna í gegnum tíðina.
Tímaritið New York Magazine á heiðurinn af þessum endurfundum og birti myndirnar í nýjasta tölublaði sínu, titlað Reasons to Love New York. Bandaríski ljósmyndarinn David LaChapelle fékk það skemmtilega verkefni að taka myndirnar.
Meðal þeirra sem stilltu sér upp fyrir myndavélina voru Maya Rudolph, Mike Myers, Chevy Chase, Tina Fey, Julia Louis-Dreyfus, Seth Meyers, Jimmy Fallon, Candice Bergen, Amy Poehler, Bill Hader og Kristen Wiig, en á myndunum má sjá liðsmenn frá upphafshópi Saturday Night Live allt til þeirra sem halda gríninu uppi í dag.
Fyrsti SNL-þátturinn fór í loftið þann 11. október 1975 og var það George Carlin heitinn sem fór á kostum sem gestastjórnandi.