Ásta Fanney Sigurðardóttir verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í myndlist árið 2026. Tilkynnt var um valið á Listasafni Íslands í dag en tvíæringurinn er talinn einn mikilvægasti vettvangur samtímalistar á heimsvísu.
Myndlistarmiðstöð hefur umsjón með íslenska skálanum fyrir hönd Menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Í rökstuðningi valnefndar segir m.a. að Ásta Fanney leiti sífellt nýrra leiða í tjáningu sinni og hafi náð miklu valdi á bæði texta- og gjörningaforminu. Verk hennar séu seiðandi uppspretta ljóðrænu þar sem undirliggjandi greining og gagnrýni er túlkuð með hjálp margvíslegra miðla.
Ásta Fanney er talin einn af fremstu gjörningalistamönnum landsins og er þekkt fyrir að fara ótroðnar slóðir í list sinni. Ásamt því að fást við myndlist er hún einnig ljóðskáld og tónlistarkona og blandar saman listformum og ólíkum miðlum. Hún hefur sýnt og flutt verk sín á söfnum og hátíðum víða um heim meðal annars í Listasafni Reykjavíkur, Ars Longa, Onassis og MOT og var tilnefnd til Bernard-Heidsieck-Centre Pompidou bókmenntaverðlaunanna í Frakklandi árið 2021. Þá hlaut hún Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2017.
Ásta Fanney segir það mikinn heiður að taka þátt í tvíæringnum.
„Ég er með mjög góða tilfinningu fyrir Feneyjum og held að þetta verði algjört ævintýri. Það er mikill heiður að fá að taka þátt enda er þetta stærsti myndlistarviðburður í heiminum og ég er bæði glöð og spennt að fara þangað sem fulltrúi Íslands. Ég ætla bara að fylgja innsæinu, það kemur alltaf eitthvað gott út úr því.“
Fagráð Myndlistamiðstöðvarinnar skipuðu Elísabet Gunnarsdóttir f.h. listasafnanna, Pétur Thomsen f.h. SÍM og Auður Jörundsdóttir forstöðumaður Myndlistarmiðstöðvar. Gestir fagráðs voru Jacob Fabricius, stjórnandi Art Hub í Kaupmannahöfn og Margot Norton sýningarstjóri hjá Berkeley Art Museum and Pacific Film.
Að þessu sinni fór valferlið fram með þeim hætti að kallað var eftir tillögum frá fagfólki og hópum á sviði myndlistar, þ.e. félögum í fulltrúaráði Myndlistarmiðstöðvar og nokkrum öðrum samtökum að auki „til að freista þess að fá inn fjölbreyttar tillögur.
Ítarlega er rætt við Ástu Fanneyju á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun.