Cassandra „Cassie“ Ventura var af og til með Sean „Diddy“ Combs yfir tíu ára tímabil eða allt þar til hún endaði sambandið árið 2018. Þetta kemur fram í nýrri hlaðvarpsseríu Law & Crime, „The Rise and Fall of Diddy“.
Ventura hefur sakað Combs um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi og bar undir hann ásakanirnar árið 2022, eftir að ný lög þess efnis tóku gildi að þolendur kynferðisofbeldis geti lögsótt ofbeldismanninn óháð því hvenær misnotkunin átti sér stað, svo lengi sem hann er yfir 18 ára aldri.
Hún lét hann vita að henni fannst hann hafa beitt sig ofbeldi, áður en hún höfðaði mál á hendur honum. Lögfræðingar beggja hittust reglulega og fóru yfir málin en samkomulag náðist ekki.
Ofbeldið á m.a. að hafa falið í sér nauðganir í gegnum áratugalangt samband þeirra sem og aðra misnotkun og stjórnun þar sem hún var þvinguð til að sofa hjá vændismönnum á meðan hann tók það upp á myndskeið.
Hann beitti hana einnig öðru líkamlegu ofbeldi og útvegaði henni eiturlyf.
Í málsókninni hélt Ventura því einnig fram að Combs hefði þröngvað sér inn á heimili hennar og nauðgað henni í lok sambands þeirra árið 2018. Combs hefur neitað öllum ásökunum og segir hana áður hafa reynt að hafa af sér fé.
Ventura krafðist þrjátíu milljóna dala og sagðist myndu skrifa bók um samband þeirra ef hann yrði ekki við kröfunni. Lögmenn Combs hafa sagt þetta augljósa tilraun til fjárkúgunar. Hún hefur þó hætt við bókarskrifin en í stað þess höfðaði hún mál á hendur Combs, sem lögfræðingar hans segja tilraun til að sverta mannorð hans.
Í kjölfar málshöfðunar Ventura hafa ótal aðrir stigið fram og sakað Combs um ofbeldi í svipuðum dúr.