Bill Belichick, fyrrverandi þjálfari ameríska fótboltaliðsins New England Patriots, mætti ásamt kærustu sinni, hinni 24 ára gömlu Jordon Hudson, á galakvöld American Museum of Natural History á fimmtudagskvöldið. Þetta er í fyrsta sinn sem parið gengur hönd í hönd niður rauða dregilinn.
Samband parsins hefur vakið talsverða eftirtekt og ratað á síður erlendra fjölmiðla, sérstaklega sökum aldursmunar, en 48 ár aðskilja parið. Belichick er 72 ára en Hudson aðeins 24 ára.
Parið byrjaði að hittast í ársbyrjun 2023, stuttu eftir að Belichick hætti með sambýliskonu sinni til 16 ára, athafnakonunni Lindu Holliday.
Hudson var háskólanemi og klappstýra fyrir skólaliðið þegar hún kynntist Belichick.
Parið, sem virðist yfir sig ástfangið, hefur ekki látið aldursmuninn hafa nein áhrif á sambandið og hefur verið afar duglegt að deila ást sinni og ævintýrum á samfélagsmiðlum.