Raðmorðinginn Mick Jagger

Fyrir hvað er þessi maður aftur frægur?
Fyrir hvað er þessi maður aftur frægur? AFP/Kevin Winters

Öll þekkjum við Mick Jagger. Eða hvað? Tja, ekki ef marka má sögu sem Gene Simmons, bassaleikari og söngvari glysgoðanna í Kiss, sagði í hlaðvarpsþætti Zaks Kuhns vestur í Bandaríkjunum á dögunum.

Til umfjöllunar var að ungt fólk nú orðið þekkti upp til hópa ekki nöfn á helstu rokkhetjum sögunnar, ekki einu sinni þeim allra frægustu, eins og Jagger. Sem dæmi um þetta sagði Simmons sögu af því þegar sonur hans, Nick, gaf sig á tal við unga og að sögn bráðhuggulega stúlku á förnum vegi.

Hann var þá liðlega tvítugur en Nick þessi er 35 ára gamall núna, samkvæmt Wikipedíu. Þannig að meira en áratugur er liðinn frá því að þetta gerðist, sem gerir söguna enn merkilegri.

En alla vega. Stúlkan var klædd í Rolling Stones-bol, með tungunni frægu framan á, og Nick sá sóknarfæri í því.

„Svo þú ert aðdáandi?“ spurði hann.

„Ha, hverra?“ svaraði stúlkan.

„Þú veist, Stónsaranna.“

„Stónsaranna?“ hváði stúlkan.

„Já, The Rolling Stones.“

„The Rolling Stones. Hvað er það? Band?“

„Ertu að grínast?“ stundi þá Nick. „Þú ert í bol merktum þeim!“

Feðgarnir Nick og Gene Simmons.
Feðgarnir Nick og Gene Simmons. AFP

„Þú meinar,“ svaraði stúlkan og horfði niður á bolinn sinn. „Nei, mér finnst þessi bolur bara flottur.“

Einhver hefði látið staðar numið þarna en Nick Simmons var ekki af baki dottinn. „Þú hlýtur að þekkja The Rolling Stones, Satisfaction, þú veist,“ sagði hann og hummaði riffið ódauðlega.

„Neibb, aldrei heyrt þetta.“

Hann spreytti sig á fleiri lögum en áfram voru öll ljós slökkt hjá blessaðri stúlkunni.

„Hefurðu þá aldrei heyrt um Mick Jagger?“

Þá skyndilega lifnaði yfir stúlkunni. „Mick Jagger? Jú, jú, ég hef heyrt hans getið.“

Þegar hér er komið sögu bað Simmons Kuhn þáttarstjórnanda um að halda sér fast og spenna beltið. „Það sem ég er að fara að segja þér er dagsatt, tíu fingur til Guðs, og engar ýkjur.“

„Já, einmitt,“ sagði stúlkan. „Mick Jagger, raðmorðinginn.“

Ekki fylgdi sögunni hvort Nick Simmons hélt áfram að stíga í vænginn við hana.

Nánar er fjallað um vangaveltur Genes Simmons um örlög rokksins í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Varastu öll gylliboð, sem eiga að færa þér hamingju og auðæfi í einu vetfangi. Sýndu sjálfum þér og öðrum mildi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Varastu öll gylliboð, sem eiga að færa þér hamingju og auðæfi í einu vetfangi. Sýndu sjálfum þér og öðrum mildi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar