Viðskiptamaðurinn Donald Trump Jr. og sjónvarpskonan Kimberly Guilfoyle hafa slitið trúlofun sinni eftir rúmlega fimm ára samband. Guilfoyle er átta árum eldri en Trump Jr. og var nýverið tilnefnd af fyrrverandi tengdaföður sínum til að verða næsti sendiherra Bandaríkjanna í Grikklandi.
Trump Jr. eyddi ekki löngum tíma í að sleikja sárin en hann er strax kominn með nýja kærustu og sagður yfir sig hrifinn. Sú er níu árum yngri en elsti sonur Donalds Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna.
Sú heppna heitir Bettina Anderson og er þekkt hefðarkona á Palm Beach. Parið hefur ekki farið leynt með nýfundna ást sína og hefur verið myndað saman á þó nokkrum viðburðum síðustu vikurnar.
Samband Trump Jr. og Guilfoyle hafði, að sögn heimildarmanns Page Six, verið á hálum ís í dágóðan tíma og var það því einungis tímaspursmál hvenær þau færu í sundur.
Trump Jr. á fimm börn með fyrrverandi eiginkonu sinni, Vanessu Kay Haydon. Þau skildu sumarið 2018.