„Fáir munu þeir kvikmyndagestir, sem ekki þekkja Tyrone Power, hinn glæsilega mann, sem árum saman hefir notið aðdáunar og hylli milljóna manna og kvenna – og þó einkum kvenna.“
Á þessum orðum hófst burðargreinin í fyrsta tölublaði tímaritsins Stjarna kvikmyndanna, sem hóf göngu sína á Íslandi á aðventunni 1945. Fjallaði hún alfarið um Tyrone Power og var eftir Harry nokkurn Brand.
Og ennfremur: „Þeir, sem orðið hafa þeirrar ánægju aðnjótandi að kynnast Tyrone persónulega, tala mikið um fegurð hans og sérstakt jafnvægi. Hann hefur það viðmót, þá menntun og það útlit, sem kvikmyndaframleiðendur og stjórnendur sífellt sækjast eftir. Hann heillar alla með alúð, einlægum áhuga og hann hefir þann sérstaka hæfileika að gefa samræðum leikandi líf.“
Ekki amalegir mannkostir, það.
Einnig var í blaðinu mergjaður dálkur frá „fréttaritara vorum“ í Hollywood. Hann var ekki nafngreindur. Þar voru fréttirnar í anda Séð & heyrt. Eins og til dæmis þessi:
„Einhver mesti kunningsskapur, sem talað er um í Hollywood, er þessi á milli Lana Turner og Frankie Sinatra. Þau kynntust, þegar Lana var að leika með Tommy Dorsey, sem þá var húsbóndi Frankie. En nú er Lana bara gift Steve Crane, og nú verða þau þrjú, – Lana, Steve og Frankie – að skemmta sér saman. Þetta sýnist allt ganga ákaflega vel.“
Ekki er ástæða til að efast um það.
Nánar er fjallað um Stjörnur kvikmyndanna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins