„Við skuldum Keiru Knightley hnausþykka afsökunarbeiðni.“ Þessi fyrirsögn í breska blaðinu The Independent um daginn vakti athygli mína. Hvað höfum við gert aumingja konunni? velti ég fyrir mér. Og hver erum „við“? Svona geta fyrirsagnir dregið mann inn í greinar um ólíklegustu hluti.
Fljótt kom í ljós að illa og mögulega ómaklega hefur verið talað um Knightley frá því að leikferill hennar hófst þegar hún var barn og unglingur. Hún er ekki nema 39 ára í dag. Árið 2003 markaði upphafið en þá lék hún í fyrstu Pirates of the Caribbean-myndinni og jólasmellinum Love Actually sem gengið hefur aftur hver jól allar götur síðan.
Vinir Knightley vöruðu hana reyndar við að taka að sér hlutverkið í sjóræningjaspéinu. „Jæja, þá er ferli þínum lokið,“ sögðu þeir, eins og hún rifjaði síðar upp í The Telegraph. En myndin, sem Orlando Bloom og Johnny Depp léku einnig í, fór á óvænt flug og skyndilega var Knightley, 18 ára, á allra vörum.
En athyglin var súrsæt enda varð það fljótt að íþrótt að gagnrýna Knightley og jafnvel tala niður til hennar, fegurðar- og mjónusmána hana, eins og rifjað er upp í grein The Independent sem vísað var til hér að ofan. „Svo virtist sem ungar konur væru hvattar til að líkjast henni en fyrirlíta hana um leið. Hún væri of pirrandi, of fín með sig, of stíf, of grönn, hörmuleg leikkona og hræðileg fyrirmynd,“ segir höfundurinn, Katie Rosseinsky.
Er nema von að Knightley sjálf hafi ekki vitað í hvorn fótinn hún ætti að stíga. „Eins undarlega og það hljómar var þetta í senn að skapa mig og rífa mig niður,“ sagði hún í viðtali við The Times fyrir skemmstu. „Þetta eru vinsælustu myndir sem ég mun nokkru sinni leika í en um leið eru þær ástæðan fyrir því að ég var dregin í svaðið.“
Í öðru viðtali, við Elle UK, segir hún blaðamenn hafa keppst við í viðtölum að segja henni að hún væri ömurleg leikkona, augljóslega haldin lystarstoli og að fólk hataði hana. „Fyrir táning eða manneskju sem er nýskriðin yfir tvítugt eru þetta mjög undarleg skilaboð,“ segir Knightley.
Nánar er fjallað um Keiru Knightley og nýja myndaflokkinn sem hún leikur í á Netflix, Black Doves, í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.