Haliey Welch, sem á hina frægu „Hawk Tuah“-setningu, hefur tekist að koma sér í vandræði með útgáfu rafmyntar.
Welch, sem er aðeins 22 ára, varð fræg á einu augabragði vegna myndbands sem birtist af henni á TikTok í sumar og fór í kjölfarið vítt og breitt um samfélagsmiðla. Þann 4. desember gerði hún gott betur og setti á markað rafmyntina Hawk Tuah, ásamt ónefndu teymi, sem hríðféll nánast samdægurs.
Dulkóðaði gjaldmiðillinn er búinn til í afþreyingarskyni á Solana blockchain og gerir fólki kleift að fjárfesta í honum.
Welch setti myntina á markað á miðvikudagskvöldi á verðinu 0,04916 dollara og rauk markaðsvirðið upp í næstum 500 milljónir dala áður en það hríðféll niður í 25 milljónir dala síðdegis daginn eftir, á verðinu 0,002439 dollara.
Ruglingsleg kynning rafmyntarinnar virðist hafa haft mikið tap í för með sér fyrir marga fjárfestana.
Youtube-áhrifavaldurinn Coffeezilla, sem er með fleiri en þrjár milljónir áskrifenda, sagði í Space X samtali við Welch að Hawk Tuah-útfærslan hefði verið ein ömurlegasta kynning sem hann hefði séð og sakaði hana og teymið um innherjaviðskipti, sem þau hafa alfarið neitað.
Þá greindi CoinTelegraph frá því að um 80-90% af framboði Hawk Tuah-myntarinnar hefði stjórnast af innherjaviðskiptum eða „leyniskyttum“, fjárfestum sem kaupa mikið magn við útgáfu myntarinnar og selja svo strax.
Dulkóðaðir gjaldmiðlar á borð við þennan sem Welch gaf út eru taldir mjög sveiflukenndir og áhættusöm fjárfesting, sem stýrast að miklu leyti af vinsældum á samfélagsmiðlum.
Eftir að Hawk Tuah-rafmyntarævintýrið vakti neikvæða athygli á samfélagsmiðlum birti Burwick Law, fyrirtæki sem sérhæfir sig í dulkóðuðum gjaldmiðlum, færslu á X þar sem fjárfestar og aðrir sem veðjuðu á Hawk Tuah eru hvattir til að skoða lagaleg réttindi sín.
Enn er óljóst hvort útgáfa Hawk Tuah-myntarinnar hafi lagalegar afleiðingar og engar skýrar vísbendingar eru til staðar um einhvers háttar misgjörðir eða ólögmæti.