Amma tramma skítaramma

Ungur mjólkurpóstur frá bóndanum Geira í Eskihlíð á ferð í …
Ungur mjólkurpóstur frá bóndanum Geira í Eskihlíð á ferð í Pósthússtræti á stríðsárunum síðari.

„Þetta var heilmikil áskorun fyrir mig að leggja í þetta, en jafnframt mjög skemmtilegt. Barnavinafélagið Sumargjöf fól mér þetta verkefni á sínum tíma í tilefni hundrað ára afmælis félagsins á þessu ári. Ég fékk frjálsar hendur og þetta átti ekki að vera um félagið heldur fjalla almennt um börn í Reykjavík undanfarin hundrað ár og ég naut þess að vinna að þessari bók,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur, en nýlega kom út bók hans Börn í Reykjavík, sem er einhvers konar aldarspegill í gegnum sögu barna í höfuðborginni.

Ærslafullar stelpur, snemma á síðustu öld hjá Alþingishúsi og Dómkirkju.
Ærslafullar stelpur, snemma á síðustu öld hjá Alþingishúsi og Dómkirkju. Ljósmynd/Magnús Ólafsson

„Ég var ekki alveg ókunnugur efninu því ég skrifaði á sínum tíma sögu Reykjavíkur frá 1870 til 1940, og ég hef skrifað fleiri bækur um Reykjavík og fór þá í gegnum mikið magn heimilda. Ég hafði þann hátt á að ég reyndi að finna allar endurminningar fólks sem ólst upp í Reykjavík og hafði birst í bókum, og í ljós kom að þær voru miklu fleiri en ég bjóst við. Ég lá líka í blöðum og tímaritum, las alls konar viðtöl við fólk sem og sögubækur þar sem sagt er frá leikjum barna og öðru.

Þetta er því mjög víðtækt, en ég reyndi að gera þetta lifandi með því að láta persónulegar frásagnir fólks njóta sín í hverjum kafla. Mér finnst bókin verða líflegri fyrir bragðið. Ég er afskaplega ánægður með þessa bók og mér finnst hönnun hennar falleg og þessar fjölmörgu myndir af börnum frá ólíkum tímum fá að njóta sín vel.“

Skemmtileg barnamenning

Skólamál og heilbrigðismál taka eðli málsins samkvæmt sitt pláss í bókinni, einnig barnaverndarmál, dagmömmur og lyklabörn, vöggustofur, vistheimili og fleira, en fjölmargt er þar leiftrandi skemmtilegt úr menningu barna. Til dæmis er sérstakur kafli um orðbragð barna á fyrri tímum í borginni, sem er órjúfanlegur hluti af þeirri barnamenningu sem horfin er.

Krakkahrúga við innganginn á Gamla bíói fyrir þrjúbíó um 1955.
Krakkahrúga við innganginn á Gamla bíói fyrir þrjúbíó um 1955. Ljósmynd/Ólafur K. Magnússon

„Fá börn trúi ég að segi nú á tímum: farðu í rass og rófu, piss piss og pelamál, eða amma tramma skítaramma. Slíkt blót og fleira í þeim dúr sem ég segi frá í bókinni er byggt á frásögn konu sem ólst upp í Reykjavík upp úr 1910, en reyndar kannast ég vel við margt af því sem hún segir frá í orðbragði barna, þótt ég sé fæddur miklu seinna, um miðja tuttugustu öld,“ segir Guðjón og hlær.

„Þetta orðbragð hefur því lifað lengi, þótt það sé að mestu horfið núna. Fyrri tíma orðbragð tengdist líka útileikjum, sem einnig eru horfnir úr menningu barna.“

Viðtalið birtist fyrst í Bókablaði Morgunblaðsins, sem kom út 29. nóvember, en þar má finna viðtalið í heild. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar