Rán Flygenring, teiknari og rithöfundur, beinir sjónum sínum að nærumhverfi okkar í nýjustu bók sinni sem ber heitið Tjörnin.
„Tjörnin fjallar um tvö börn sem finna tjarnarbotn í garðinum sínum. Bókin er byggð á sönnum atburðum, en fyrir rúmu ári flutti ég inn í nýja íbúð og í garðinum var dæld sem okkur var sagt að hefði verið tjörn fyrir margt löngu. Við þessa uppgötvun kom auðvitað ekkert annað til greina en að gera dældina að tjörn á nýjan leik. Um leið og tjörnin var tilbúin kom það mér á óvart hversu mikið líf þessi litli pollur laðaði að sér. Á augabragði flykktust allir kettir hverfisins að tjörninni til að fá sér að drekka, ánamaðkar birtust unnvörpum og fuglar af öllum tegundum mættu til að baða sig. Tjörnin var ekki síður vinsæl meðal íbúa og nágranna. Mér fannst þetta svo magnað og fylgdist grannt með þessu líflega vatnsbóli úr eldhúsglugganum,“ segir Rán.
„Fljótlega fórum við að hafa áhyggjur af því að tjörnin yrði útungunarstöð fyrir mýflugur. Ég fór að lesa mér til um pumpur og gosbrunna sem gára yfirborðið, og álpaðist í kjölfarið inn í garðyrkjugrúppu á Facebook til að leita ráða hjá öðrum tjarnarhöfum. Þar fékk ég ótal góð ráð og það myndaðist mjög jákvæð og skemmtileg stemning í þræðinum. En svo kom ein athugasemd frá konu sem sneri öllu á hvolf. Hún vildi minna á að tjarnir eru jú stórhættulegar, þær þarf að girða af og loka því það þarf ekki djúpan poll til að barn geti drukknað. Þessi athugasemd fékk töluvert á mig, enda hafði ég fylgst með öllu lífinu sem tjörnin framkallaði, en allt í einu var dauðinn mættur og kastaði skugga á þessa rómantísku tjarnarmynd mína. Allt í einu vaknaði ég á morgnana hálfpartinn viðbúin því að einhver lægi örendur í tjörninni. Þetta varð sem sagt kveikjan að bókinni. Lífið er alveg lífshættulegt.“
Viðtalið birtist fyrst í Bókablaði Morgunblaðsins, sem kom út 29. nóvember, en þar má finna viðtalið í heild.