Fimm hafa verið ákærðir í tengslum við andlát breska tónlistarmannsins Liam Payne. Hann lést þann 16. október síðastliðinn eftir að hafa fallið niður af þriðju hæð á hóteli í borginni Buenos Aires í Argentínu.
Gilda Martin, framkvæmdastjóri hótelsins CasaSur, Esteban Grassi, móttökustjóri þess, og Roger Nores, vinur Payne, voru öll ákærð fyrir manndráp af gáleysi, en þeir Braian Paiz og Ezequiel Pereyra, starfsmenn hótelsins, voru ákærðir fyrir að útvega Payne fíkniefni.
Í nóvember var greint frá því að þrír hefðu stöðu sakbornings í tengslum við andlát fyrrum One Direction-liðsmannsins.
Eiturefnaskýrsla sýndi fram á að Payne hafði neytt áfengis, kókaíns og lyfseðilsskylds þunglyndislyfs innan við 72 klukkustundum fyrir andlátið. Hinir grunuðu voru sakaðir um að hafa útvegað söngvaranum fíkniefni og að minnsta kosti einn þeirra fyrir að hafa yfirgefið Payne í annarlegu ástandi.
Payne var borinn til grafar þann 20. nóvember í Buckinghamskíri á Englandi.