Yolanda Saldívar, sem varð söngkonunni Selenu Quintanilla-Pérez að bana þann 31. mars 1995, hefur sótt um reynslulausn úr fangelsi eftir tæplega 30 ára vist á bak við lás og slá.
Morðið á Quintanilla-Pérez, sem er best þekkt fyrir lög á borð við Bidi Bidi Bom Bom, Si Una Vez og Dreaming of You, vakti heimsathygli á sínum tíma og voru margir sem fylgdust af ákefð með réttarhöldunum yfir Saldívar, sem var á þeim tíma formaður aðdáendaklúbbs söngkonunnar og starfaði einnig sem framkvæmdastjóri verslunar sem var í eigu Quintanilla-Pérez, eða Selenu eins og hún var ávallt kölluð.
Saldívar skaut söngkonuna í bakið á hótelherbergi í bænum Corpus Christi í Texas-fylki þegar Quintanilla-Pérez ásakaði hana um að svíkja út gríðarlega háar fjárhæðir. Söngkonan heimtaði að sjá fjármálaskjöl fyrirtækisins, en í stað þess að sýna henni skjölin dró Saldívar upp byssu og skaut söngkonuna í bakið þegar hún reyndi að forða sér út úr herberginu.
Quintanilla-Pérez var flutt með hraði á sjúkrahús þar sem hún lést af sárum sínum örfáum klukkustundum síðar. Hún var aðeins 23 ára gömul.
Saldívar hefur alla tíð haldið því fram að þetta hafi verið slysaskot og sagt að hún hafi ætlað að binda enda á eigið líf þennan örlagaríka dag. Kviðdómur trúði ekki þeim skýringum hennar að um slys hefði verið að ræða og var hún dæmd í lífstíðarfangelsi með möguleika á reynslulausn eftir 30 ár.
Umsókn hennar um reynslulausn er nú til skoðunar hjá fangelsismálastofnun Texas.
Þrátt fyrir ungan aldur hafði Quintanilla-Pérez mikil áhrif á tónlistarheiminn og skildi eftir sig ríka tónlistararfleið.
Kvikmynd um ævi og störf Quintanilla-Pérez var frumsýnd tveimur árum eftir andlát hennar og var það leik- og söngkonan Jennifer Lopez sem túlkaði hana af stakri prýði.