Leikstjórinn Jeff Baena fannst látinn á heimili sínu í Los Angeles í gær. Hann var eiginmaður leikkonunnar Aubrey Plaza.
Breska ríkisútvarpið greinir frá og segir þar að aðstoðarmaður leikstjórans hafi komið að honum og að dánarorsök leikstjórans sé óljós.
Baena er best þekktur fyrir að hafa leikstýrt myndunum The Little Hours, Life After Beth og Joshy.
Hann giftist leikkonunni Aubrey Plaza árið 2021 en hún hefur ekki tjáð sig um andlátið enn sem komið er.
Fjölskylda Baena hefur þó tjáð sig og segist niðurbrotin vegna fráfalls leikstjórans og hefur beðið um að fá frið og næði á þeim erfiðu tímum sem hún glímir nú við.
Baena útskrifaðist frá háskólanum í New York með gráðu í kvikmyndafræði áður en hann hélt svo til Los Angeles til að reyna fyrir sér sem leikstjóri.
Hans fyrsta mynd, Life After Beth, kom út árið 2014 og lék Plaza eitt af aðalhlutverkum myndarinnar.