Elín Sif Hall, sem hefur skipað sér sess sem ein af fremstu leikkonum Íslands, vakti athygli í gær þegar hún deildi gleðistundum frá 85 ára afmælisfögnuði ömmu sinnar, goðsagnarinnar Iðunnar Steinsdóttur, í „Story“ á Instagram.
Í veislunni voru lagatextar eftir Iðunni sungnir henni til heiðurs en í myndbroti Elínar má meðal annars heyra ódauðlegan texta hennar úr laginu „Bíddu pabbi, bíddu mín“ en hún samdi fjölmarga aðra þekkta lagatexta, svo sem „Átján rauðar rósir“ og „Ég fer í fríið“.
Ýtarlegt viðtal við Iðunni birtist í Sunnudagsmogganum síðasta vor, þar sem hún rifjaði upp feril sinn sem ein af helstu skáldkonum landsins. Iðunn hefur einnig skrifað fjölmargar bækur, þar á meðal hinar ástsælu barnabækur um Snuðru og Tuðru, sem hafa heillað kynslóðir lesenda.
„Markmiðið er alltaf að vera meira eins og hún,“ sagði Elín á Instagram þar sem hún deildi gamalli mynd af ömmu sinni sem sýnir hversu ótrúlega líkar þær eru. Leikkonan hefur áður, meðal annars í viðtali við RÚV, þakkað ömmu sinni fyrir að hafa vakið með sér sköpunarkraftinn. Þær hafa alltaf verið mjög nánar.
Árið 2024 var afar viðburðaríkt fyrir leikkonuna ungu, sem deildi þakklætisfærslu með myndum af hápunktum ársins á Instagram nýverið.
Hún leikur meðal annars í nýjum þáttum um Vigdísi Finnbogadóttur, fyrsta kvenforseta heims, auk þess sem hún fór með aðalhlutverk í kvikmyndinni Ljósbrot, sem var frumsýnd á hinni virtu kvikmyndahátíð í Cannes. Fyrir frammistöðu sína í Ljósbroti hlaut hún verðlaun sem besta leikkona á Chicago International Film Festival.
Til viðbótar við þennan árangur var Elín tilnefnd til Edduverðlauna fyrir leik sinn í kvikmyndinni Kuldi. Þá náði hún enn lengra á alþjóðavettvangi þegar hún var valin í hóp European Shooting Stars 2025, sem er árleg viðurkenning veitt efnilegum leikurum í Evrópu af European Film Promotion.