Suðurafríska leik- og söngkonan Winnie Khumalo er látin, aðeins 51 árs, eftir stutt veikindi. Þetta kemur fram á BBC. Afrópoppsöngkonan var þekkt fyrir langan tónlistarferil sem hófst á níunda áratugnum. Þá kom hún einnig fram í vinsælum suðurafrískum sjónvarpsþáttum.
Hún er þekktust fyrir smellinn Live My Life og hefur unnið með þekktum suðurafrískum listamönnum, þ.á.m hinni látnu Brendu Fassie.
Að sögn systur Khumalo lést söngkonan í gær á leiðinni á sjúkrahús eftir stutt veikindi en ekki er ljóst hver þau voru.
Khumalo skilur eftir sig ríka tónlistar- og sjónvarpsarfleifð og var þekkt í heimalandi sínu fyrir kraftmikla rödd og fjölhæfa frammistöðu. Hún lætur eftir sig dóttur, Rethabile Khumalo, og son, Thabo Khumalo.