David Muir, fréttamaður hjá ABC-sjónvarpsstöðinni, hefur verið stimplaður sem hégómlegur af kollegum sínum og netverjum eftir að hafa klæðst gulum hlífðarjakka slökkviliðsmanna þegar hann var í beinni útsendingu að flytja fréttir frá vettvangi gróðureldanna í Los Angeles.
Ástæða stimplunarinnar er sú að jakki Muir, sem var merktur sjónvarpsstöðinni, var tekinn saman í bakið með klemmum til að virðast þrengri og sást það áberandi í útsendingunni.
Myndskeið af fréttaflutningi Muir, sem er þekktur fyrir að vilja sýna vöðvastæltan líkama sinn, hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum og hafa margir gagnrýnt fréttamanninn fyrir að pæla í útlitinu á stund sem þessari.
Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt fréttamanninn er sjónvarpskonan Megyn Kelly, en hún fjallaði um atvikið í hlaðvarpsþætti sínum á fimmtudag og sagði Muir hafa sýnt fórnarlömbum gróðureldanna virðingarleysi með þessu.