Bandaríska leikkonan Jean Smart, sem vann til Golden Globe-verðlauna fyrir leik sinn í þáttaröðinni Hacks á sunnudagskvöldið, vill aflýsa útsendingum frá komandi verðlaunahátíðum í Hollywood, meðal annars Grammy-verðlaunahátíðinni, Óskarnum og Screen Actors Guild-verðlaunahátíðinni, og nýta peningana, sem annars færu í útsendinguna, til að hjálpa þeim tugþúsundum fórnarlamba skógareldanna sem geisa nærri Los Angeles.
Smart deildi þessari hugmynd með fylgjendum sínum á Instagram á fimmtudag og fékk mjög jákvæð viðbrögð frá netverjum.
„Með fullri virðingu, en á meðan verðlaunahátíðavertíðin í Hollywood er í fullum gangi, vona ég innilega að eitthvað af sjónvarpsstöðvunum sem sýna frá komandi verðlaunahátíðum taki það til skoðunar að sýna ekki frá þeim í beinni útsendingu og nýta frekar peningana í að hjálpa fórnarlömbum skógareldanna og slökkviliðsmönnunum sem hafa barist við eldinn,” skrifaði Smart við færsluna sem nærri 30 þúsund manns hafa líkað.
Hátt í 10 þúsund byggingar hafa brunnið í eldunum í kringum næststærstu borg Bandaríkjanna og hafa yfir 180 þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín.