Leikarinn og leikstjórinn, Ben Affleck, varði dágóðri stund í faðmlögum við dóttur sína á tilfinningaþrungnu augnabliki eftir að hafa þurft að yfirgefa heimili sitt í Los Angeles vegna Palisades-eldsins.
Affleck, sem á þrjú börn með fyrrverandi eiginkonu sinni Jennifer Garner, var myndaður fyrir utan heimili sitt á laugardaginn þegar eldarnir geisuðu í borginni. Eign Afflecks er metin á tuttugu milljónir bandaríkjadala.
Dóttir hans var með grímu á andlitinu til að verja öndunarfærin gegn ösku og reyk. Samkvæmt Page Six sneri Affleck aftur til heimilis síns eftir rýminguna til að vitja eignarinnar þrátt fyrir að rýmingarskylda væri enn í gildi. Þá er hann einnig sagður hafa verið í reglulegu sambandi við Jennifer Lopez, á meðan váin steðjar að, en skilnaður þeirra gekk í gegn aðeins degi fyrir rýmingu.