Bandaríska söngkonan Macy Gray, sem skaust upp á stjörnuhimininn með laginu I Try árið 1999, þolir illa að tapa ef marka má framkomu hennar í hæfileikaþættinum Masked Singer á laugardagskvöldið.
Gray, ein af tólf þátttakendum í sjöttu þáttaröð bresku útgáfu þáttanna, stórmóðgaðist þegar dómnefnd þáttarins, sem þau Mo Gilligan, Davina McCall, Maya Jama og Jonathan Ross skipa, tilkynnti henni að hún væri úr leik og á heimleið.
Söngkonan, sem keppti í gervi froskdýrs, kvaddi sviðið án þess að taka af sér grímuna og afhjúpa sig, en keppnin gengur út á það að komast að því hver er undir grímunni.
Gray, sem hefur svo sannarlega munað fífil sinn fegurri, mætti aftur á svið um það klukkutíma síðar og svipti þá hulunni af sjálfri sér. Hún ræddi stuttlega við kynni þáttarins en svaraði honum með hálfgerðum dónaskap.
Myndskeið af atvikinu hefur vakið mikla athygli um heim allan og hafa margir sakað söngkonuna um „dívustæla“.