Katrín prinsessa af Wales kom sjúklingum á krabbameinsdeild Royal Marsden-sjúkrahússins í Lundúnum heldur betur á óvart þegar hún kíkti í heimsókn þangað fyrr í dag.
Prinsessan, sem sjálf gekkst undir krabbameinsmeðferð á sjúkrahúsinu á síðasta ári, vildi sýna svolítið þakklæti í verki með þessum hætti og settist niður með starfsfólki og sjúklingum og ræddi við og hlýddi á sögur fólksins.
Katrín fór í aðgerð á kviðarholi í janúar í fyrra en þá var ekki ljóst að prinsessan væri með krabbamein.
„Eftir aðgerðina kom þó í ljós að krabbamein hafði verið til staðar,“ sagði Katrín þegar hún greindi frá krabbameininu. Þá hafi henni verið ráðlagt að hefja strax meðferð.
Katrín lauk lyfjameðferð í september síðastliðnum og er sögð á góðum batavegi.