Í nýjustu bók sinni Not Allowed to Get Old: Thoughts on Aging as a Woman, fjallar hin 59 ára fyrirsæta og leikkona Brooke Shields um hvernig samband sitt við kynlíf hefur breyst eftir að hún eltist. Þetta kemur fram á vef tímaritsins People.
Hún segist hafa verið drifin áfram af kynhvötinni þegar hún var yngri þrátt fyrir að hafa aldrei getað sleppt sér alveg. Hún missti meydóminn 22 ára með þáverandi háskólakærasta sínum.
„Ó, hvað ég vildi óska að ég hefði bara leyft lostanum að taka völdin,“ skrifar hún í bók sinni. Þegar hún lítur til baka segir hún kynhvötina þó ekki geta verið ólíkari í dag, frá því hvernig hún var á hennar yngri árum.
„Og núna er ég hér, meira en 35 árum síðar, og þykist stundum vera sofandi þegar ég veit að Chris er í stuði og það hefur ekkert með Chris að gera. Hann er heitur!“ Þetta hefur Shields að segja um eiginmann sinn til fjölda ára, Chris Henchy.
Ekki nóg með það heldur lýsir hún hvernig hárið er farið að þynnast, magafitan hafi aukist og kynhvötin minnkað. Hún segist ganga í gegnum allan þann skít sem fylgi því að vera kona sem eldist og þ.a.l finnist henni hún minna aðlaðandi fyrir eiginmann sinn en nokkru sinni áður.
Sársaukann við kynlíf segir Shields hins vegar ekki vera vegna aldurs né minnkandi kynhvatar heldur vegna aðgerðar á skapbörmum sem framkvæmd var fyrir nokkrum árum, án hennar samþykkis, af „Dr. Malpractice“. Til að hún geti notið kynlífs til fulls þurfi hún alls kyns krem og sleipiefni og helst tequila til að ná almennilegri slökun.