Leikarinn og raunveruleikastjarnan Paul Danan, sem er líklega hve þekktastur fyrir hlutverk sitt í bresku sápuóperunni Hollyoaks og þátttöku sína í raunveruleikaþáttaröðinni Celebrity Love Island, er látinn 46 ára að aldri.
Kynningarteymi Danan greindi frá andlátinu í fréttatilkynningu.
„Það er með mikilli sorg í hjarta sem við segjum frá því að Paul Danan er látinn. Ótímabært andlát hans skilur eftir sig tómarúm í lífi allra þeirra sem þekktu hann. Við biðjum um frið til að syrgja,” sagði í fréttatilkynningu.
Danan hafði átt við heilsuvandamál að stríða undanfarna mánuði og greindi meðal annars frá því á síðasta ári að hann ætti við öndunarbilun vegna mikillar notkunar rafrettna. Leikarinn missti meðvitund á heimili sínu í júní og var endurlífgaður af fjölskyldumeðlimi og fluttur á sjúkrahús þar sem hann lá í lífshættu á gjörgæsludeild í einhverja daga.
Dánarorsök Danan hefur ekki verið gefin upp.
Danan birti færslu á Instagram-síðu sinni fyrir viku síðan þar sem hann sýndi frá áheyrnarprufu sinni fyrir uppfærslu á leikverki Shakespears A Twelfth Night.