Eurovisiontíðin er formlega hafin hjá Íslendingum, því lögin sem taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins voru kynnt í síðustu viku. Regína Ósk, sem er margreynd í keppninni sjálfri og einn vinsælasti álitsgjafi landsins þegar kemur að Eurovision, mun fylgjast náið með keppninni og aðdraganda hennar í Skemmtilegri leiðinni heim með Ásgeiri Páli og Jóni Axel á K100. Hún ræddi fyrstu viðbrögð sín við lögunum í þættinum í vikunni.
Hér fyrir neðan má hlusta á spjallið.
Undanúrslitakvöldin verða tvö – það fyrra 8. febrúar og það síðara 15. febrúar. Að þessu sinni komast sex lög áfram í úrslitin, sem fara fram 22. febrúar í Gufunesi. Þar verður framlag Íslands í Eurovision 2025 valið. Í ár verður hins vegar hætt við svokallað einvígi, og sigurvegari keppninnar verður einfaldlega það lag sem hlýtur flest stig.
„Fyrir mér stendur keppnin svolítið ein og sér,“ sagði Regína. „Þarna eru bæði nýir flytjendur og tónlistarfólk sem hefur verið í bransanum í mörg ár og eru að koma með nýja tónlist. Það skiptir ekki endilega máli að vinna keppnina – það er líka frábært tækifæri til að koma sér á framfæri.“
„Það fyrsta sem ég hugsaði var: Vá! Þetta er svo fjölbreytt,“ sagði Regína. „Við erum með ballöðu, við erum með rokkara – tvenns konar rokklög. Við erum með rapp, við erum með popp, smá kántrí og smá tölvupopp. Það er allt í boði.“
Hún bætti við að það væri skemmtilegt að sjá blönduna af ungu upprennandi tónlistarfólki og fólki sem hefur verið áður.
Hún benti á að það væri einnig áhugavert að sjá hvaða áhrif söngvakeppnir eins og Idol hafi á tónlistarflóruna en þrír keppendur sem voru í Idol eru að keppa í Söngvakeppninni í ár.
Þegar spurt var hver hún teldi líklegastan til að sigra, var Regína þó varkár og sagðist vera lítið hrifin af því að gefa hreint og beint álit eftir að hafa heyrt lögin í fyrsta skipti.
„Söngvakeppnin er, eins og Eurovision – þá snýst þetta ekki bara um lagið,“ sagði hún og bætti vð að hún yrði að sjá lögin á sviði auk þess sem hún vildi fá að sjá hvort flytjendur gætu flutt þau vel á sviði.
Hún sagði þó að vinsældir á Spotify gætu gefið vísbendingar: „Þar bera Væb höfuð og herðar yfir alla flytjendur,“ sagði hún, en lag þeirra hefur nú þegar náð yfir 22 þúsund spilunum.
„Það er gott 'væb' með þeim þessa dagana. Þessir strákar eru líka svo yndislegir, gefa frá sér svo gott 'væb' og góða jákvæða orku. En á móti kemur þá voru þeir í fyrra og hafa þennan meðbyr frá síðasta ári. Þannig að það er kannski ekkert skrítið að þeir séu með mestu spilanirnar,“ sagði Regína, en benti á að spilanir segðu oft ekki alla söguna.
„Eins og Hera í fyrra, hún var ekki með rosa margar spilanir en vann samt,“ bætti hún við áður en hún fór yfir spilanir á öðrum lögum Söngvakeppninnar. Þar má nefna að lag Júlís Heiðars og Dísu er með yfir 10.000 spilanir, auk laga Birgo, Tinnu og Ágúst, sem eru öll í kringum 8.000 spilanir, þegar þetta er skrifað.
Talið barst að Bjarna Arasyni, sem keppir í ár með lagið Aðeins lengur. „Mér finnst gaman að sjá Bjarna af því að hann er geggjaður söngvari,“ sagði Regína. „Maður á það til að gleyma honum af því að hann er ekkert mikið að trana sig fram. Bara kominn í hótelbransann og að gera eitthvað allt annað. Ekki nóg með það, heldur er hann að syngja lag eftir einn uppáhalds lagahöfundinn minn, Jóa Helga. Þeir tveir áttu náttúrulega Karen, sem lenti í öðru sæti árið 1992.“
Regína lýsti einnig spennu sinni fyrir því að fá að hitta flytjendurna í hljóðveri K100: „Við munum fá alla þessa flytjendur í heimsókn og ræða um heima og geima, því það er gaman líka að kynnast nýju fólki. Fullt af nýjum flytjendum,“ sagði hún.
Hér má heyra lögin á Spotify.