Lynn Ban, frægur skartgripahönnuður og stjarna Bling Empire: New York-þáttanna á Netflix, er látin aðeins 52 ára eftir að hafa lent í hræðilegu skíðaslysi fyrir aðeins örfáum vikum.
Sebastian sonur hennar tilkynnti um andlátið á Instagram nú í morgun: „Til fylgjenda mömmu minnar: Mamma mín lést á mánudaginn...“ Hann segist með færslunni enda frásögnina af nokkurra vikna ferðalagi hennar og heilaskurðaðgerð, sem hún var dugleg að deila með fylgjendum sínum.
Fyrir nokkrum vikum greindi Ban frá því að hún þurfti að gangast undir bráðaaðgerð á heila á aðfangadagskvöld eftir að hafa lent í hræðilegu skíðaslysi. Hún var í fríi í Aspen, Colorado, þegar atvikið átti sér stað en hún hafði verið dugleg að setja myndir úr ferðinni inn á Instagram.
„Á einu augabragði... Getur lífið breyst,“ hafði Ban skrifað í færslu eftir slysið. Hún lýsti því jafnframt að hafa verið stödd á toppi fjallsins þegar hún datt á andlitið. Það hafi ekki virst svo slæmt í fyrstu, enda alltaf með hjálm og að hún hafi skíðað niður fjallið. Skömmu eftir slysið fann hún fyrir höfuðverk og var ráðlagt af starfsmanni skíðasvæðisins að leita á sjúkrahús. Þar kom í ljós að blætt hafði inn á heila svo hún var send með sjúkraflugi á annað bráðasjúkrahús.
Þegar hún skrifaði færsluna þakkaði hún þeim sem björguðu lífi hennar, en er nú látin.
Bling Empire-þættirnir á Netflix eru innblásnir af kvikmyndinni Crazy Rich Asians frá 2018. Þeir fóru fyrst í loftið í janúar 2021 og var fylgst með efnuðum konum í hinum ýmsum borgum sem reka stórfyrirtæki og eru duglegar að fara út á lífið – sambland af skemmtun og drama, líkt og svo margir aðrir raunveruleikaþættir.