Bandarísku leikararnir Billy Crystal og Meg Ryan gerðu allt vitlaust á samfélagsmiðlasíðunni Instagram í gærdag þegar Ryan deildi mynd af þeim saman í sófanum sem þau sátu á í lokasenu rómantísku gamanmyndarinnar When Harry Met Sally frá árinu 1989.
Á myndinni er Crystal klæddur í sams konar hvíta kaðlapeysu og hann klæddist í hinni sívinsælu kvikmynd Noru Ephron heitinnar.
Tvíeykið gaf í skyn að það væri með eitthvað spennandi í bígerð.
„Það er loksins að gerast, við ætlum að koma aftur saman. Við getum ekki beðið eftir að sýna ykkur öllum bráðlega,” skrifaði Ryan við færsluna sem vakti fljótt mikla athygli netverja.
Fjölda þekktra Hollywood-stjarna líkaði við færsluna, meðal annars íslenska tónlistarkonan Laufey Lín Bing Jónsdóttir, og virðast margir spenntir að sjá þau sameinast á hvíta tjaldinu að nýju.
Margir eru þó skeptískir um að leikararnir ætli sér að endurtaka hlutverk sín sem Harry Burns og Sally Albright í nýrri kvikmynd og telja líklegra að þau séu að koma saman í auglýsingu fyrir Ofurskálina, sem er sunnudaginn 9. febrúar.
Nú er bara að bíða og sjá!