Bandaríska söngkonan SZA mun troða upp með rapparanum Kendrick Lamar á hálfleikstónleikum Ofurskálar NFL-deildarinnar í New Orleans í næsta mánuði.
Frá þessu er greint í nýrri stiklu fyrir Ofurskálina þar sem má sjá rapparann ganga um á fótboltavelli og tala í símann um mögulega gesti fyrir atriðið þegar SZA gengur aftan að honum og skvettir fötu af vatni yfir hann.
SZA og Lamar hafa gefið út nokkur lög í gegnum tíðina. Á meðal þeirra er lagið luther sem er á nýútgefinni plötu Lamars, GNX, en lagið er það vinsælasta á plötunni.
Þá hafa þau einnig gefið út lagið All the Stars sem var tilnefnt til Grammy- og Óskarsverðlauna árið 2022 fyrir besta frumsamda lagið fyrir kvikmyndina Black Panther.
Það þykir mikill heiður að koma fram í hálfleik Ofurskálarinnar og er iðulega mikil spenna fyrir því hver muni troða upp. Á meðal þeirra sem hafa komið fram eru Paul McCartney, Beyonce, Michael Jackson og Madonna.
R&B-söngvarinn Usher tróð upp á tónleikunum á síðasta ári og Rihanna árið á undan.