Söngkonan Charli XCX, sem á smellina Guess ásamt Billie Eilish og 360, leiðir bresku tónlistarverðlaunin (Brit Awards) í ár með fimm tilnefningar, m.a. er plata hennar Brat tilnefnd sem plata ársins.
Hún er einnig tilnefnd sem listamaður ársins, fyrir besta popp- og dansatriðið og lag ársins, Guess, sem var á toppnum í ágúst.
Sjötta plata hennar kom út í júní og varð eitthvað miklu meira en poppplata en boðskapurinn varð að eins konar menningarhreyfingu, en orðið „Brat“ (ísl. krakkaormur) var valið orð ársins 2024 af Collins Dictionary og náði einnig inn í baráttuna í bandarísku forsetakosningunum þegar forsetaframbjóðandi demókrata, Kamala Harris, notaði orðið í herferð sinni og einkennislit plötunnar, grænan.
Á Brit-verðlaununum í ár skákar Charli XCX söngkonunni Dua Lipa sem er með fjórar tilnefningar en hefur áður unnið til sjö Brit-verðlauna.