Bandaríska tónlistarkonan, Azelia Banks, var á uppseldu tónleikaferðalagi um Bretland á síðasta ári. Nú er hún á leið til Evrópu aftur og í þetta skiptið til Kaupmannahafnar.
Banks er 33 ára rappari og söngkona sem ólst upp með tveimur systkinum sínum hjá einstæðri móður þeirra í Harlem í New York. Hún hóf tónlistarferilinn við sextán ára aldur en hægt er að segja að hún hafi orðið heimsfræg fyrir smáskífuna 212 (2011) sem gerði allt vitlaust, m.a. hérlendis.
Banks hefur á stundum valdið fjaðrafoki og þá sérstaklega fyrir að eiga í útistöðum við aðra tónlistarmenn. Í síðasta mánuði lenti hún upp á kant við Matty Healy úr The 1975, en Healy á að hafa hótað að berja Banks fyrir að setja út á útlit söngkonunnar Charli XCX.
Þann 1. apríl næstkomandi mun Banks stíga á svið í Store Vega í Kaupmannahöfn.