Í gær hélt Kim Kardashian upp á sjö ára afmæli dóttur þeirra Kanye West, Chicago, með kúrekaþema og glæsileika. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún heldur öfundsvert afmæli fyrir barnið sitt enda ekki þekkt fyrir annað en að gera hlutina með pompi og prakt.
Afmælisbarnið klæddist hvítri kögurskyrtu með áletruninni „Chicago West“ á bakinu. Í stíl við skyrtuna bar hún hvítan kúrekahatt og klæddist hvítum og drapplituðum kögurbuxum. Í Instagram-sögu Kardashian sýnir dóttir hennar fötin undir laginu Texas Hold 'Em með Beyoncé.
Yngri bróðir Chicago, Psalm sem er fimm ára, birtist einnig á mynd ásamt frænda sínum Tatum, tveggja ára, syni Khloé Kardashian.
Svo var það vitaskuld drottningin sjálf, Kim Kardashian, sem klæddist svörtu leðri í tilefni dagsins, með kúrekahatt og í fráhnepptri skyrtu.
Umgjörðin var hin glæsilegasta en í stuttu myndskeiði sýnir hún frá langborði með bleikum dúk skreyttum blómum og í stað stóla voru heybaggar með bleikri ábreiðu. Afmæliskakan sjálf var kúrekastígvél með aldri Chicago og nafni hennar.