Söngvarinn og tónlistarmaðurinn, Nick Cave, segir fráfall tveggja sona sinna hafa opnað augu hans fyrir að listin er ekki allt og að ábyrgðarhlutverkið gagnvart konu sinni og fjölskyldu drífi hann áfram, þau séu uppspretta sköpunarkraftsins og staðurinn þar sem hann finnur gleðina.
„Það er erfitt að ýkja hversu fallegt er að ég eigi lítinn afastrák, sem er sjö mánaða,“ sagði ástralski söngvarinn í þættinum BBC Radio 4's Desert Island Discs.
Sonur Cave's, hinn fimmtán ára gamli Arthur, lést eftir fall fram af kletti í Brighton 2015 og elsti sonur hans, Jethro, lést 2022 í Melbourne, aðeins 31 árs gamall.
Cave hefur áður talað um sorgina sem fylgdi sonamissinum, þar sem hann m.a. sagði að eftir að Arthur féll frá hafi hann ávallt fundið fyrir nærveru hans. „Harmur og ást eru samtvinnuð að eilífu,“ skrifaði söngvarinn í opnu bréfi. „Sorg er hræðileg áminning um dýptina sem ást okkar hefur og, líkt og ástin, er sorgin óumsemjanleg.“
Cave og fjölskylda hans, þ.á.m. tvíburabróðir Arthurs, Earl, og fatahönnuðurinn og kona hans, Susie, fluttu frá Brighton til Los Angeles því þeim fannst of erfitt að búa svo nálægt staðnum þar sem Arthur lést.
Í vor stefnir Cave á tónleikaferðalag um Norður-Ameríku til að kynna áttundu og nýjustu plötu sína Wild God. Hann hefur gefið það út að hann muni hætta að koma fram þegar hann hættir að geta látið sig falla á hnén „knee drop“ á sviði.