Tónlistar- og leikkonan Elín Hall gefur hlustendum sínum skammdegisgjöf með sex nýjum lögum í lifandi flutningi sem voru tekin upp í Hljóðrita með Reyni Snæ. Útgáfan, sem ber titilinn Fyllt í eyðurnar, kom óvænt út í dag, föstudaginn 31. janúar.
Hér má sjá tilkynningu Elínar á TikTok.
Tónlistarkonan Hrafnhildur Magnea, betur þekkt sem Raven, syngur með Elínu í titillaginu.
Lagið tók óvænta stefnu þegar þær unnu saman í gegnum TikTok, þar sem Raven bætti við nýju erindi og kláraði þannig lagið. Elín hafði áður tekið fram að hún ætlaði aldrei að gefa út lagið.
Fyrsta opinbera flutning lagsins sáu áhorfendur á kveðjutónleikum sem Elín hélt fyrir verðlaunaplötuna Heyrist í mér? sem haldnir voru í IÐNÓ síðastliðinn nóvember.
„Íslenski tónlistarheimurinn er magnaður og frábrugðin öllu öðru. Ég vann þessa litlu plötu með litlu teymi af fólki sem ég hef kallað vini mína frá unglingsárum. Ég vildi gefa út lög sem annars myndu enda ofan í skúffu. Ég er alltaf að semja og prufa lögin mín á samfélagsmiðlum. Ég er ótrúlega þakklát fyrir þá sem hvetja mig áfram og saman tökum við stefnu með þetta verkefni, ég og þeir sem hlusta. Mér finnst kominn tími á nýtt íslenskt efni. Hér er engin tilgerð, ekkert masterplan. Bara einlæg tónlist og tilfinning sem við tókum með okkur upp í eitt vandaðasta upptökuver landsins. Öll lögin eru ekki mikið meira en ein taka. Lifandi, hrátt og beint inn í kviku,“ er haft eftir Elínu Hall í fréttatilkynningu.
Lögin eru komin á helstu streymisveitur en hér má hlusta á þau á Spotify.