Söngkonan Beyoncé hlaut í gær Grammy-verðlaun fyrir plötu ársins, fyrir Cowboy Carter, í fyrsta skipti á ferlinum. Áður en hún hlaut verðlaunin var hún mest tilnefnda tónlistarkonan í flokknum án sigurs.
Knowles var tilnefnd ásamt André 3000 fyrir New Blue Sun, Sabrinu Carpenter fyrir Short n' Sweet, Charli XCX fyrir BRAT, Jacob Collier fyrir Djesse Vol. 4, Billie Eilish fyrir Hit Me Hard and Soft, Chappel Roan fyrir The Rise and Fall of a Midwest Princess og Taylor Swift fyrir The Tortured Poets Department.
Hópur úr slökkviliðinu í Los Angeles var viðstaddur til að afhenda verðlaunin og söfnuðu um leið sjö milljónum dala til hjálparstarfa.
Þegar nafn Beyoncé var tilkynnt faðmaði hún dóttur sína Blue Ivy og eiginmann sinn, og rapparann, Jay-Z. Þá hlaut hún standandi lófaklapp frá salnum. Með sigrinum skráði hún nafn sitt í sögubækurnar sem fyrsta svarta konan, í 50 ár, til að vinna til Grammy-verðlauna í flokki kántrítónlistar, en áður voru það Pointer Sisters sem hlutu Grammy-verðlaun fyrir besta kántrídúóið árið 1975.
Fyrir Grammy-verðlaunin í gær var Beyoncé þegar mest verðlaunaði Grammy-listamaður sögunnar en hún setti það met árið 2023 með plötu sinni Renaissance. Í gær bætti hún um betur og eru Grammy-verðlaun hennar nú orðin 34 talsins.