„Þetta er í fyrsta sinn sem ég er tilnefndur svo ég var með fæturna á jörðinni,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson en hann vann til Grammy-verðlauna í fyrsta sinn í gærkvöldi.
Víkingur hlaut verðlaunin í flokki bestu einleikara í klassískri tónlist fyrir flutning sinn á Goldberg-tilbrigðunum eftir Johann Sebastian Bach.
Í samtali við Morgunblaðið segist hann hafa verið búinn að búa sig undir að vinna ekki. „Þegar maður er búinn að undirbúa sig fyrir það þá er enn óvæntara og skemmtilegra að vinna.“
Víkingur var ekki viðstaddur verðlaunaafhendinguna í Los Angeles. Hann er um þessar mundir á tónleikaferðlagi um Evrópu. Þá segir hann að öllum viðburðum á vegum útgáfufyrirtækis síns Universal Music Group og Deutsche Grammophon hafi verið aflýst vegna hinna miklu elda sem geisað hafa í borginni.
Hann hafi því horft á athöfnina í Berlín með yfirmönnum hjá útgáfufyrirtækinu. „Þetta var ótrúlega skemmtilegt kvöld.“
Nánar verður rætt við Víking Heiðar í Morgunblaðinu á morgun, þriðjudag.