Kylie Jenner og leikarinn Timothée Chalamet sáust laumast inn á hótel í Beverly Hills í Kaliforníu fyrir lágstemmt stefnumótakvöld. Þegar þau stigu út úr bílnum reyndi Jenner að hylja andlit sitt.
Parið var svartklætt frá toppi til táar, Chalamet í svörtum, renndum jakka, joggingbuxum, strigaskóm og með hettu á höfðinu en Jenner í svörtum leðurjakka, leggings og leðurstígvélum.
Jenner og Chalamet kveiktu fyrst sögusagnir um að þau væru að stinga saman nefjum snemma árs 2023. Í sama mánuði sást svartur Range Rover-jeppi Jenner fyrir utan heimili leikarans í Beverly Hills. Í september sama ár sáust þau í innilegu keleríi á tónleikum Beyoncé í Los Angeles.
Síðar í sama mánuði sáust þau saman á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis og það var svo í byrjun árs 2024 sem Jenner mætti í fylgd Chalamet á Golden Globe-hátíðina.