Söngvakeppnin 2025 hefst á laugardaginn þegar fyrri fimm lögin verða flutt. Seinni fimm lögin keppa 15. febrúar en sjálft úrslitakvöldið verður 22. febrúar þegar kosið verður um framlag Íslendinga í Eurovision þetta árið.
Það verður nóg um að vera á viðburðunum en meðal þeirra sem koma fram er finnski söngvarinn Käärijä sem hafnaði í 2. sæti í Eurovision 2023 með lagið Cha Cha Cha. Lagið hefur notið gríðarlegra vinsælda hér á landi. Með honum stígur á svið sænski elektróniski dúettinn Hooja sem er að slá í gegn á Norðurlöndunum. Uppselt er á úrslitakvöldið en enn eru lausir miðar á fjölskyldurennslið.
Herra Hnetusmjör, Jóhanna Guðrún og Aron Can opna kvöldin þrjú. Hera Björk, sigurvegari söngvakeppninnar í fyrra, kemur einnig fram á úrslitakvöldinu. Aron Can mun opna keppnina þann 8. febrúar, Jóhanna Guðrún þann 15. febrúar og Herra Hnetusmjör 22. febrúar.
„Við erum í skýjunum yfir því að fá allt þetta frábæra listafólk með okkur á stóra sviðið í. Käärijä hefur til að mynda notið gríðarlegra vinsælda hér á landi og það verður gaman að sjá hann trylla áhorfendur í höllinni á úrslitakvöldinu. Áhorfendur munu alveg örugglega gleðjast yfir Heru, Aroni Can, Hr. Hnetusmjör og Jóhönnu Guðrúnu sem mun meðal annars taka lagið Is it true sem lenti í 2. sæti í Eurovision 2009. Og hún verður ekki ein á sviðinu, því bakraddirnar sem voru með henni í Moskvu 2009, þau Friðrik Ómar, Hera Björk og Erna Hrönn, ætla að vera með henni. Svo verða líka alls konar uppákomur. Ég veit að kynnarnir okkar, þau Benni, Fannar og Gunna Dís, munu bjóða upp á ansi margt skemmtilegt. Ég held að nú geti fjölskyldur landsins farið að hlakka til,“ segir Rúnar Freyr Gíslason framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar í fréttatilkynningu.
„Þetta verður frábær keppni í ár, lögin eru fjölbreytt og góð og atriðin lofa svo sannarlega góðu."