Söngkonan og lagahöfundurinn, Lily Allen, og leikarinn David Harbour eru skilin eftir fjögurra ára hjónaband. Ekki alls fyrir löngu sagðist Allen ætla að taka sér hlé frá hlaðvarpsþætti sínum Miss Me? til að huga að andlegri heilsu sinni.
„Ég á erfitt með að hafa áhuga á hlutum. Ég er í raun ekki á góðum stað,“ sagði hún í þættinum. „Ég veit. Ég hef talað um þetta í marga mánuði en ég hef verið í spíral sem hefur farið úr böndunum. Ég hef reynt.“
Söngkonan vakti grunsemdir um að hjónabandið stæði á brauðfótum þegar hún sást á Raya, stefnumótaforriti fræga fólksins, í lok síðasta árs.
Raya hefur aldeilis reynst söngkonunni vel þar sem þau Harbour höfðu hist á forritinu áður en þau hófu samband sitt í janúar 2019.