Hollywood-framleiðandinn David Brian Pearce hefur verið sakfelldur fyrir morð á fyrirsætunum Christy Giles og Hildu Marcelu Cabrales-Arzola. Þetta kemur fram í tímaritinu People.
Giles og Cabrales-Arzola voru í teiti í Los Angeles í nóvember 2021 og gögn og myndir sýna fram á að þær hafi verið með Pearce og fleirum í teitinu. Síðar sama kvöld var Giles og Cabrales-Arzola gefinn of stór skammtur af fíkniefnum og talið er að Pearce hafi átt þar hlut að máli. Ákæruvaldið hélt því einnig fram að Pearce hefði misnotað þær því rannsókn leiddi m.a. í ljós að DNA úr Pearce hefði fundist á konunum tveimur.
Pearce og Brandt Walter Osborn skildu þær eftir meðvitundarlausar fyrir utan sitthvorn spítalann í Los Angeles. Í júlí 2022 var Pearce ákærður fyrir morðið á þeim og sakfelldur fyrir bæði morðin í gær.
Giles var 24 ára þegar hún lést en Cabrales-Arzola 26 ára. Pearce, sem er 42 ára, var í fyrstu handtekinn grunaður um manndráp en forsendur breyttust eftir ítarlega rannókn og læknisfræðilegt mat.
Giles fannst látin en Cabrales-Arzola var meðvitundarlaus fyrir utan annan spítala. Hún komst aldrei til meðvitundar og lést á spítala 11 dögum síðar. Líffæri hennar gáfu sig en í líkama hennar fundust kókaín og alsæla, ásamt fleiri óþekktum efnum.
Áður en hann var ákærður 2022 hafði Pearce fengið á sig nokkrar kærur vegna kynferðisbrota gegn nokkrum fórnarlömbum milli áranna 2007 og 2020. Þá var hann einnig fundinn sekur vegna eldri brota. Þrátt fyrir sakfellingu Pearce komst kviðdómur ekki að niðurstöðu varðandi vitorðsmann hans, Osborn. Sá er 45 ára og 13. mars verður tekin ákvörðun um hvort fram fari önnur réttarhöld í máli Osborn.
Pearce á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.