Ástralski áhrifavaldurinn Belle Gibson laug því opinberlega að hafa greinst með banvænan sjúkdóm í því skyni að kynna óhefðbundnar lækningar. Nú hefur verið gerð Netflix-þáttaserían Apple Cider Vinegar um Gibson.
Saga Gibson komst í fjölmiðla 2013 þegar hún setti á markað smáforrit með ráðleggingum um hvernig hún hefði sigrast á krabbameini. Aðeins fjórum árum áður hafði áhrifavaldurinn, að eigin sögn, greinst með illvígt krabbamein í heila, þá aðeins tvítug að aldri.
Hún sagðist eiga aðeins um sex vikur til fjóra mánuði ólifaða en hélt því fram að hún hefði valið að hætta í lyfja- og geislameðferð og þess í stað leitast við að lækna sjálfa sig náttúrulega; með góðri næringu, þolinmæði, ákveðni og kærleika.
Smáforriti hennar fylgdi matreiðslubók í kjölfarið, en baráttu hennar við sjúkdóminn var fylgt eftir af 200.000 manns á Instagram, sem þá var nýlegt forrit. Gibson var sögð ein mest hvetjandi kona ársins af ástralska Elle-tímaritinu og Cosmopolitan veitti henni „Skemmtileg, óttalaus kona“-verðlaunin árið 2014.
Orðrómur fór á kreik um að saga Gibson væri helber lygi og í apríl 2015 viðurkenndi hún sannleikann í viðtali við Women's Weekly, en þvertók fyrir að taka frekari ábyrgð.
Í mars 2017 var Gibson fundin sek um fimm brot á neytendalögum og í september var henni skipað af dómstóli í Melbourne að endurgreiða 205.000 pund til Viktoríuríkis fyrir fölsk loforð. Árið 2021 hafði sektin hækkað í 250.000 pund.
Það er alls óvíst af hverju Gibson datt í hug að ljúga svona að almenningi, hvort eitthvað af hegðuninni mætti rekja til áfalla í æsku eða einhvers konar sjúklegrar athyglisþarfar (Munchausen-heilkennið).
Gibson hefur varla sést á almannafæri síðan skandallinn komst upp.