Það gustar heldur betur í kringum rapparann Kanye West þessa dagana og það virðist sem hann geri í því að stuða fólk. Núna, rétt eftir havaríið í kringum framkomu West og eiginkonu hans Biöncu Cencori á rauða dreglinum á Grammy-verðlaunahátíðinni, kallar hann eftir að Sean Diddy Combs, eða P. Diddy, verði látinn laus úr fangelsi.
P. Diddy var handtekinn í september síðastliðnum og situr nú í gæsluvarðhaldi í Metropolitan Detention Center, í Brooklyn, New York. Hann situr undir fjölda ásakana m.a. fyrir nauðganir, kynlífsmansal og fjársvik. Hann hefur ítrekað neitað sök en réttarhöld yfir honum hefjast í maí.
West skrifaði með hástöfum á samfélagsmiðlum í gær: „Free Puff“. Með Puff á hann við P. Diddy sem áður var kallaður Puff Daddy.
Rapparinn deildi síðan myndbandi af sér á Instagram þar sem hann spjallaði við son P. Diddy, Christian „King“ Combs, í myndsímtali.
Þá hefur West „bætt um betur“ með því að gefa út vörulínu undir vörumerki sínu Yeezy með áletruninni „Sean John“, sem er skírnarnafn P. Diddy.
Vegna þessa hefur West fengið yfir sig holskeflu athugasemda frá óánægðum aðdáendum sem eru ekki par sáttir við stuðning West við P. Diddy og finnst þetta full langt gengið.