„Mamma, ég er að koma heim!“

Andy Ozzys Osbournes mun ekki bara svífa yfir vötnum á …
Andy Ozzys Osbournes mun ekki bara svífa yfir vötnum á Villa Park í sumar; goðsögnin verður sjálf á staðnum.  ​ AFP/Justin Tallis

„Aftur í ræturnar“ er yfirskrift tónleikaveislu á Villa Park í Birmingham í sumar, þar sem brautryðjendurnir í Black Sabbath og goðsögnin Ozzy Osbourne kveðja málmsamfélagið í allra, allra hinsta sinn. Margt góðra gesta kemur einnig fram.

„Mamma, ég er að koma heim,“ söng Ozzy Osbourne um árið, í einu af sínum frægustu lögum. Og sá gamli ætlar aldeilis að standa við stóru orðin, en kunngjört var í vikunni að hann myndi slá upp einu giggi enn og það á heimavelli, knattspyrnuleikvanginum Villa Park í Birmingham á Englandi, í sumar og kveðja þannig kóng og prest og alla hina sem bundið hafa sitt trúss við þennan frægasta málmlistamann sem um getur. Ozzy ólst upp í næsta nágrenni við völlinn og mikla athygli vakti síðasta sumar þegar hann tók þátt í að auglýsa nýjan keppnisbúning knattspyrnuliðsins Aston Villa, sem leikur heimaleiki sína á Villa Park. Meira viðeigandi vettvangur finnst því hvorki í þessum heimi né öðrum.

Ozzy er orðinn 76 ára og afar lítið hefur farið fyrir honum á sviði hin síðustu ár enda hefur hann, svo sem margoft hefur komið fram, glímt við parkinsonsjúkdóminn og ýmsa aðra kvilla. Kappinn hefur lengi búið í Bandaríkjunum og lítið ferðast undanfarin ár en lengi alið þann draum í brjósti að koma einu sinni enn heim til Birmingham, til að snerta ræturnar. Fáir bjuggust þó við því að það myndi hann gera með slíkum bravör sem raun ber vitni, en menn eru þegar farnir að tala um málmmessu aldarinnar.

Allir saman á ný

Ozzy verður nefnilega ekki einn á ferð. „Aftur í ræturnar“ er yfirskrift tónleikanna, sem fram fara 5. júlí, og með honum verða hinir þrír sem komu að stofnun fyrsta málmbands sögunnar, Black Sabbath, í grámanum í Aston í Birmingham fyrir 57 árum. Við erum að tala um 1968.

Ozzy Osbourne, Bill Ward, Tony Iommi og Geezer Butler eru …
Ozzy Osbourne, Bill Ward, Tony Iommi og Geezer Butler eru Black Sabbath. ​ ​AFP/Scott Gries

Ozzy söng inn á fyrstu átta plötur Sabbath en síðan skildu leiðir um langt árabil. Hann sneri ekki aftur fyrr en á plötunni 13 árið 2013, en henni var fylgt eftir með veglegri tónleikaferð, The End, sem lauk einmitt í Birmingham árið 2017. Tony Iommi gítarleikari og Geezer Butler bassaleikari voru með í för og trymbillinn Bill Ward átti að vera það líka en gekk úr skaftinu. Sjálfur bar hann því við að samningstilboðið hefði verið óásættanlegt en Ozzy gaf síðar til kynna að Ward hefði hreinlega ekki ráðið líkamlega við verkefnið. Það er nú allt grafið og gleymt og Ward verður á sviðinu þegar Black Sabbath lokar veislunni í sumar. Hér er ekki lítið á sig lagt, en auk veikinda Ozzys hefur Iommi glímt við krabbamein í meira en áratug.

Þar á undan er gert ráð fyrir stuttu sólogiggi frá Ozzy og meðal manna sem troða munu upp með honum má nefna bassafantinn Rudy Sarzo, sem var með Ozzy þegar gítarséníið Randy heitinn Rhoads var í sólóbandi hans snemma í áttunni og gítarleikararnir Jake E. Lee og Zakk Wylde sem komu þar á eftir. Þegar Lee varð fyrir skoti á götu úti á liðnu ári kom fram að Ozzy hefði hvorki heyrt hann né séð í bráðum fjóra áratugi. Þannig að eitthvað þurfa þeir félagar að fara yfir þegar fundum þeirra ber saman sumar, en Lee er gróinn sára sinna. 

James Hetfield lætur sig ekki vanta í veisluna. ​
James Hetfield lætur sig ekki vanta í veisluna. ​ AFP/Kevin Winter

Gestagoðsagnir

Wylde á í dag aðild að hinu goðsagnakennda málmbandi Pantera, sem mun að sjálfsögðu líka stíga á svið á Villa Park. Menn sem sungu forðum: „Your trust is in whiskey and weed and Black Sabbath.“ Þarna verða einnig málmrisar á borð við Metallica og Slayer. Mörgum þætti það ugglaust nóg en við erum líka að vinna með Gojira, Alice in Chains, Halestorm, Lamb of God, Anthrax og Mastodon. Takk fyrir, túkall.

Nánar er fjallað um þessa málmmessu aldarinnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það getur mikil sáluhjálp verið fólgin í því að eiga góðan trúnaðarvin. Ef þú getur ekki glatt þig sjálfur er lítil von til þess að aðrir geti það.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Anna Sundbeck Klav
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Colleen Hoover
5
Patricia Gibney
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það getur mikil sáluhjálp verið fólgin í því að eiga góðan trúnaðarvin. Ef þú getur ekki glatt þig sjálfur er lítil von til þess að aðrir geti það.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Anna Sundbeck Klav
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Colleen Hoover
5
Patricia Gibney