„Þetta er eins konar konseptplata, skulum við segja. Hún er í reynd um andstæð orð, sjónarmið, hugmyndir og glímuna sem það býður upp á. Hún er um ágreining, ytri átök og átökin sem búa innra með okkur öllum,“ segir Tatiana Shmayluk, söngkona/rymjari málmbandsins Jinjer í samtali við málmgagnið Metal Hammer en fimmta breiðskífa þess, Duél, kom út á föstudaginn.
Yrkisefnið kemur svo sem ekki á óvart en Jinjer er frá Úkraínu, þar sem stríð hefur geisað í bráðum þrjú ár.
Fyrst eftir að stríðið braust út gerðu fjórmenningarnir í Jinjer hlé á tónsköpun sinni og ferðalögum til að geta tekið þátt í hjálparstarfi heima fyrir. Þegar við blasti að stríðið myndi dragast á langinn tóku þau hins vegar upp þráðinn; töldu það betri leið til að minna á hildarleikinn og berjast fyrir réttlæti og friði.
Duél er líka persónuleg plata, alltént á köflum. Þannig nefna bæði Shmayluk og Eugene Abdukhanov bassaleikari Green Serpent þegar þau eru spurð um uppáhaldslag á plötunni. „Green Serpent er okkur afar kært. Ég hef verið edrú í nokkur ár og það fjallar eiginlega um það,“ segir Shmayluk og Abdukhanov bætir við: „Þegar ég heyrði Tatiönu syngja það í fyrsta skipti var það svo áhrifamikið að tár streymdu niður vanga mér. Ég hef líka verið edrú í fimm ár, þannig að þetta hitti beint í mark. Ég held að þetta sé besta lag sem Jinjer hefur nokkru sinni samið.“
Sem fyrr á trymbillinn Vlad Ulasevitsj heiðurinn af flestum lögunum. „Við erum svo lánsöm að hafa Vlad, sem er sköpunarmaskína. Trú mín er sú að eitthvað hafi komið fyrir höfuðið á honum þegar hann var barn sem gerði hann að þessu tónlistarséníi,“ segir Abdukhanov. „Ég sé satt best að segja ekki fyrir mér að þetta band verði nokkru sinni uppiskroppa með hugmyndir eða efni. Við erum alltaf með tromp á hendi.“
Nánar er fallað um Dué og Jinjer í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.