Söngkonan, lagahöfundurinn, píanóleikarinn og hinn margfaldi Grammy-verðlaunahafi Norah Jones er á leið til landsins í sumar og mun halda stórtónleika í Eldborgarsal Hörpu, fimmtudaginn 3. júlí, en miðasala hefst föstudaginn 21. febrúar.
Norah Jones steig fyrst fram á sjónarsviðið þegar hún gaf út plötuna Come Away With Me árið 2002, sem hún lýsti sjálf sem lítilli og notalegri plötu.
„Hún vann hug og hjörtu heimsins með sinni einstöku rödd og fékk meðal annars Grammy-verðlaun árið 2003 fyrir bestu plötu ársins, Grammy-verðlaun fyrir lag ársins og eins verðlaun sem Besti nýi listamaðurinn,“ segir í tilkynningu.
Þar kemur jafnframt fram að Come away With Me hafi selst í tæpum 30 milljónum eintaka og sé ein söluhæsta plata allra tíma.
Síðan þá hefur Norah Jones unnið tíu Grammy-verðlaun, nú síðast fyrir nýju plötuna Visions, og verið tilnefnd 20 sinnum. Þá hefur hún selt meira en 53 milljónir platna og hefur lögum hennar verið streymt alls tíu milljarða sinnum um heim allan.
Jones hefur gefið út fjöldann allan af vinsælum sólóplötum. Má þar nefna Feels Like Home (2004), Not Too Late (2007), The Fall (2009), Little Broken Hearts (2012), Day Breaks (2016), Pick Me Up Off The Floor (2020), tónleikaútgáfuna Til We Meet Again (2021), jólaplötuna I Dream Of Christmas (2021) og Visions (2024).
Árið 2022 stofnaði Jones sitt eigið hlaðvarp, Norah Jones Is Playing Along, þar sem hún spjallar við uppáhaldstónlistarmenn sína.