Bitcoin-milljarðamæringurinn og barnastjarnan, Brock Pierce, býðst til að rétta fyrrverandi sjónvarpsþáttastjórnandanum Wendy Williams hjálparhönd.
Pierce, sem lék í myndum á borð við The Mighty Ducks, segist vilja koma Williams fyrir á herrasetri sínu, þar sem hún hefði aðgang að hjúkrunarþjónustu allan sólarhringinn.
„Ég hef alltaf dáðst að styrk Wendy og þegar ég sá hana biðja um hjálp var ómögulegt að hunsa það,“ segir hann í yfirlýsingu til erlendra miðla.
Í síðustu viku henti Williams handskrifuðum miða út um gluggann á hjúkrunarheimili sem hún hefur dvalið á í New York. Á miðanum stóð: „Hjálp! Wendy!“
Í kjölfarið fékk Williams lögreglufylgd á Lenox Hill-sjúkrahúsið þar sem andlegt ástand hennar var metið óbreytt, þrátt fyrir að áður hafi hún verið greind með málstol og heilabilun.
Williams hefur dvalið á deild heilabilaðra á hjúkrunarheimilinu frá því að hún var svipt sjálfræði fyrir dómstólum. Pierce er sagður skilja áskoranirnar sem Willams standi frammi fyrir og hefur því boðið henni að dvelja á herrasetri sínu, með hjúkrun allan sólarhringinn og læknisaðstoð sérsniðna að hennar þörfum.
Enn er óljóst um hvaða herrasetur ræðir en Pierce, sem er 44 ára, er sagður eiga eignir í Amsterdam, Púertó ríkó, New York og Washington, auk sögulegs portúgalsks skips.