Réttarhöld yfir franska stórleikaranum Gerard Depardieu, sem ákærður er fyrir kynferðisbrot gegn tveimur konum við tökur á kvikmynd árið 2021, hófust í gær.
AFP greinir frá og segir leikarann hafa sagt fyrir rétti í París í gær að hann væri ekki vanur að þrífa í konur.
„Ég sé ekki hvers vegna ég ætti að fara að þreifa á rassi og brjóstum konu. Ég er ekki einhver sem nuddar sér upp við aðra í neðanjarðarlestinni,“ var haft eftir honum í fyrstu yfirlýsingu hans við réttarhöldin.
Bætti hann því við að hann væri ekki svona, þetta væru lestir sem væru honum framandi.
Depardieu, sem er 76 ára, hefur leikið í meira en 200 kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hefur hann verið sakaður um óviðeigandi hegðun af um 20 konum en þetta er hins vegar fyrsta málið sem fer alla leið fyrir dómstóla.