Enski leikarinn Stephen Graham táraðist þegar hann las smáskilaboð sem honum bárust frá bandarísku tónlistargoðsögninni Bruce Springsteen stuttu eftir heimsókn hins síðarnefnda á tökusett kvikmyndar sem fjallar um ævi rokkarans.
Graham, sem fer með hlutverk föður Springsteen, Douglas Frederick „Dutch“ Springsteen, í kvikmyndinni, Deliver Me from Nowhere, greindi frá þessu í hlaðvarpsþættinum Soundtracking í umsjón Edith Bowman nú á dögunum.
Leikarinn sagði skilaboðin hafa mikla þýðingu fyrir sig og að þau skiptu hann mun meira máli en allar þær tilnefningar og verðlaun sem hann gæti mögulega hreppt á leikferlinum.
„Ég grét þegar ég las skilaboðin, skilurðu hvað ég meina? Ó, maður! Þau voru falleg. Maður gæti ekki beðið um neitt meira, þú veist, að deila þessu með einhverjum var dásamlegt. Hann er yndislegur maður,“ sagði Graham sem deildi orðum Springsteen með Bowman og hlustendum hlaðvarpsins.
„Í skilaboðunum stóð einfaldlega: „Takk kærlega fyrir. Eins og þú veist, þá lést faðir minn fyrir nokkru síðan og mér fannst eins og ég hefði séð hann í dag. Takk fyrir að gefa mér þessa minningu.”
Deliver Me from Nowhere er væntanleg í kvikmyndahús síðar á árinu. Með hlutverk Springsteen fer Jeremy Allen White, sem er einna þekktastur fyrir leik sinn í verðlaunaþáttaröðinni The Bear.